• Supersport! & Floni

    10. október kl. 21:30 - Iðnó

    Autotjúnaðir blíðsöngvar í eina sæng við gítardrifið indírokk, einungis þetta eina kvöld í Iðnó, á tónlistarhátíðinni State of the Art!

    Þegar Flona ber á góma þá er klingjandi melódískt gítarrokk ekki það fyrsta sem manni dettur í hug. Þvert á móti gat hann sér gott orð sem einn af kyndilberum íslensku rappsenunnar við útgáfu fyrstu plötu sinnar 2017. Þar blandaði hann saman tilfinningarappi við hart trap og uppskar miklar vinsældir.

    Nýbylgjusveitin Supersport! hefur ekki fengist við autotune og trap takta af jafn miklum mætti og Floni en hefur fest sig í sessi sem ein helsta rokksveit landsins. Hljómsveitin hefur hlotið ýmis verðlaun og ferðast víða um Evrópu með gítardrifið indírokk sitt. Liðsmenn sveitarinnar hafa einnig verið kyndilberar íslensku grasrótarinnar með störfum sínum í listasamlaginu post-dreifingu.

    Á þessum einstöku tónleikum leiða þessir listamenn saman hesta sína. Supersport! kemur fram ásamt Flona þar sem lög rapparans verða sett í glænýjan búning og Floni blandast kammerpoppuðum gítarsmellum Supersport!

    Miðaverð er 4.990 kr og veitir miði á þessa tónleika einnig aðgang að fyrri tónleikum State of the Art í Iðnó þetta kvöld, Tónskáldahringekjunni.

    Vinsamlegast athugið að bæði Tónskáldahringekjan og Supersport! & Floni eru standandi viðburðir.